Lög

Lög KLLÍ eftir endurskoðun sem samþykkt var á aðalfundi félagsins 26.04.2010:

1. grein
Félagið heitir Félag um klíníska lífefnafræði og lækningarannsóknir á Íslandi, skammstafað KLLÍ og á ensku “The Icelandic Society for Clinical Biochemistry and Laboratory Medicine”. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein           
Markmið félagsins er að efla vísindalegan og hagnýtan framgang klínískrar lífefnafræði og lækningarannsókna hér á landi, efla tengsl og skoðanaskipti félagsmanna og stuðla að kynningu og samstarfi við hliðstæð félög í öðrum löndum. Félagið tekur formlegan þátt í starfsemi NFKK (
Nordisk förening för Klinisk kemi), EFCC (European Federation of Clinical Chemistry and Laboratory Medicine) og IFCC (International Federation of Clinical Chemistry and Laboratory Medicine).

3. grein           
Félagar geta orðið læknar með sérfræðimenntun eða starfsvettvang innan lækningarannsókna og einstaklingar með háskólapróf í lífvísindum og viðeigandi framhaldsnám, sem félagið tekur gilt. Inntökubeiðni skal vera skrifleg og skulu fylgja meðmæli frá tveimur virkum félögum. Stjórn félagsins tekur ákvörðun um nýja félaga og tilkynnir það félagsmönnum.

4. grein           
Stjórn félagsins skipa formaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Þeir skulu kosnir á aðalfundi til tveggja ára. Formaður er kosinn sérstaklega og má eigi sitja lengur en tvö kjörtímabil í senn. Aðrir stjórnarmenn skipta með sér verkum. Jafnframt kýs aðalfundur endurskoðanda.

5. grein           
Aðalfundur skal haldinn í apríl annað hvert ár og skal boðað til hans með 10 daga fyrirvara. Hann er löglegur ef til hans er boðað á löglegan hátt.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Samþykkt reikninga
  3. Lagabreytingar
  4. Ákvörðun félagsgjalda
  5. Kosning formanns, meðstjórnenda og endurskoðanda
  6. Önnur mál

Aðalfundur hefur einn vald til að breyta lögum félagsins og þarf til þess atkvæði 2/3 fundarmanna. Tillögur um lagabreytingar skulu fylgja fundarboði.

6. grein           
Almennir fundir skulu haldnir svo oft sem stjórn þykir ástæða til, en eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Dagskrá skal tilkynnt í fundarboði. Halda skal gerðabók um alla fundi félagsins og stjórnar þess.

7. grein  
Slit félagsins skal bera upp á aðalfundi sem boðað er til með hefðbundnum hætti. Helmingur félagsmanna þarf að samþykkja slit og skulu eignir félagsins þá renna til Læknadeildar Háskóla Íslands til styrktar rannsóknum í klínískri lífefnafræði.