Saga

 • Félag um klíníska lífefnafræði og lækningarannsóknir á Íslandi, KLLÍ, var stofnað 1978 og félagið þá kallað Meinefna-, blóðmeina- og meinalífeðlisfræðifélag Íslands, MBM-félagið.

  Fysti sérfræðingurinn í meinefnafræði, nú klínísk lífefnafræði, tók til starfa á Íslandi árið 1958, þegar stofnuð var yfirlæknisstaða við Rannsóknadeild Landspítalans. Upp úr 1970 fjölgaði talsvert háskólamenntuðum sérfræðingum, sem störfuðu á rannsóknastofum sjúkrahúsanna í klínískri lífefnafræði og var þá farið að ræða um að stofna félag til að styrkja fagsviðið og auka samstarf milli þessara sérfræðinga. 

  Þótt enn væru engin formleg tengsl við norrænu fagfélögin í klínískri kemíu tóku íslenskir sérfræðingar virkan þátt í ráðstefnunum þeirra. Á norrænu ráðstefnunni í Danmörku árið 1975 lýstu menn yfir áhuga á því að efna til ráðstefnu á Íslandi, en endanleg ákvörðun ekki tekin þar sem ekkert félag var þar til staðar.

  Árið 1978 hafði Johann Stromme, þáverandi formaður Nordisk forening for klinisk kemi, NFKK, samband við Eggert Ó. Jóhannsson yfirlækni á Borgarspítala, til að grennslast fyrir um möguleikana á að halda XVIII. Nordiske Kongress i Klinisk Kemi, NKKK, á Íslandi sumarið 1981. Boðað var til óformlegs fundar um þessa málaleitan í Reykjavík og voru undirtektir góðar.  Í framhaldinu var MBM-félagið stofnað þann 4. júlí 1978 og var fyrsti formaður kosinn Eggert Ó. Jóhannsson. Á NFKK fundinum í Oslo 1978 samþykkti stjórnin Ísland sem fullgildan þátttakanda í norrænu samtökunum og var samþykkt að næsta ráðstefna yrði haldin í Reykjavík. Félagið tók því við stóru verkefni strax við stofnun, sem var að standa fyrir norrænni ráðstefnu í klínískri kemíu á Íslandi og hefur það síðan staðið fyrir fjórum slíkum ráðstefnum, 1981, 1992, 2002 og 2012 sem allar hafa tekist með afbrigðum vel og verið mikil lyftistöng fyrir starfsemi klínískrar lífefnafræði í landinu.

  Annar þáttur í samnorrænu starfi innan klínskrar kemíu var NORDKEM og sótti félagið fljótlega um þátttöku Íslands í því samstarfi. Fékk Ísland tvo fulltrúa í stjórn, meðan hin Norðurlöndin höfðu hvert um sig þrjá fulltrúa. NORDKEM hafði á sínum tíma mikil áhrif á framgang klínískrar lífefnafræði á Norðurlöndum og styrkti gríðarlega hið norræna samstarf á þessu fagsviði.
  KLLÍ hefur staðið fyrir fræðslustarfsemi með almennum fræðslufundum, ásamt minni ráðstefnum og seminörum, þar sem kallaðir hafa verið til bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar. Einnig hefur félagið styrkt ýmsa starfsemi hérlendis, sem fallið hefur undir markmið félagsins.

  Þá hefur KLLÍ tekið þátt í mörgum samnorrænum verkefnum einkum á sviði gæðamála og á fulltrúa í samstarfi innan EQAnord, External Quality Assurance in the Nordic Countries, sem stofnað var 1992 um svipað leyti og NORDKEM var lagt niður. Félagið á ennfremur fulltrúa í ritstjórn Klinisk biokemi i Norden, sem kemur út reglubundið nokkrum sinnum á ári. Félagið á og hefur átt fulltrúa í ýmsum nefndum sem vinna að samnorrænum verkefnum faginu til framdráttar. Má þar nefna norræna prótein verkefnið, samhæfingu ensímmælinga, samnorræn viðmiðunarmörk, áhrif truflandi efna á mæliniðurstöður, INR mælingar, mælingar á ordinal skala og fleira.